Tekið af mbl.is wrote:
Flavio Briatore, liðsstjóri Renault-liðsins í Formúlu 1 kappakstrinum, bar í dag til baka að hann hefði átt í viðræðum við Ralf Schumacher, ökuþór Williams-BMW. Þýska blaðið Bild hafði í gær eftir Willi Weber, umboðsmanni Schumachers, að Ralf væri búinn að ganga frá samningi um að aka fyrir Renault á næsta keppnistímabili og aðeins væri eftir að skrifa undir.
„Ég hitti Willi Weber í Melbourne og við ræddum saman - við erum vinir og það er eðlilegt," segir Briatore í yfirlýsingu. „En við ræddum aldrei, og höfum aldrei rætt, að Ralf Schumacher aki hugsanlega í Renaultbíl."
Schumacher hefur átt í viðræðum við Williams um endurnýjun samnings. Fréttir herma að hann fái nú 12 milljónir dala í árslaun og vilji fá 15 milljónir dala.
Búist er við að Renault endurnýi ekki samning við Jarno Trulli fyrir næsta keppnistímabil og hefur Mark Webber, ökumaður Jaguar, verið orðaður við liðið. BMW Williams hefur einnig sýnt Webber áhuga.