Forsíða  
Fréttir  
Greinar  
Ljósmyndakeppni  
Myndasafn  
Myndbönd  
Reiknivél  
Hlekkir  
Samband  
Klúbburinn  
Fríðindi  
Samþykkt  
Skráning  
Spjall  

Bíll mánaðarins!

oskard/arnib ©2005
 
Tour Du Europe - ferðasaga Þröstur Höskuldsson (Thrulleri | 2005-08-26 00:15:52
Ísland:

Ferðin byrjaði jú vitaskuld á Íslandi. Leiðin norðurfyrir var lokuð vegna snjóþyngsla, það þarf nú ekki nema einn til tvö sentimetra og þá er maður alveg stopp. Þannig okkur til mikillar mæðu vorum við tilneydd að fara suðurleiðina, þmt. austfirðina eins og þeir lögðu sig. Þessu fylgdu margir litlir malarvegsspottar.. Þannig hraðinn var annaðhvort 130-140 á malbikinu eða 20-30 á mölinni, ég er ekki með neina punkta þannig maður sleppti sér aðeins, ótrúlega skemmtilegt að keyra þessa vegi svo framalega sem þeir voru malbikaðir ;-) Það var svolítið fyndið, við mættum ekki einum einasta lögreglubíl alla leiðinni og varð ég svolítið undrandi á því, hinsvegar tók einn fram úr okkur á einum malavegsspottanum þar sem við ókum aðeins á 25-30 km hraða, þeir hlógu bara að okkur.

Hinsvegar kom mér alveg í opna skjöldu hversu mikið vörubílarnir "drógu" sandinn upp úr kantinum og yfir bílinn hjá manni þegar maður mætti þeim. Eftir nokkra keyrslu hafði ég þann vana að einfaldlega stöðva bílinn þegar við mættum þeim. Og þá sá maður sandkornin skoppa niður af húddinu.

En þar sem þetta er skrifað (Ítalíu) var fallegasti vegarspotti ferðarinnar hingað til rétt við jökulsárlónið og meðfram vatnajökli, við fengum magnað veður og okkur fannst maður sjá yfir landið. Jöklarnir skörtuðu sínu fegursta og fannst okkur það mjög falleg sjón.

Norræna:





En höldum áfram, Norræna var ekkert sérlega spennandi ferð, við vorum á svefnpokaplássi, sem var ágætt. Fyrri nóttin var erfið og lítið sofið vegna einhvers bölvaðs "málm í málm" kling klang hljóði úr vélarrýminu. Við komu til Færeyja þá leituðum við víða eftir eyrnatöppum en fundum ekki, við spurðum því um borð í skipinu og vorum þá einfaldlega flutt í svefnpokapláss sem var hljótt og þægilegt þannig seinni nóttin var frábær miðað við þá fyrri.

Annars er maturinn í Norrænu í dýrari kantinum og hlaðborðið var það slakasta sem við höfum bragðað á, þó svo að það hafi kostað okkur rúman 2000 kall. Við reyndum þó að spara okkur nokkrar krónur og forum í ríkið á Egilsstöðum og versluðum eina kippu af bjór áður en við lögðum af stað, sem var án efa það heimskulegasta sem hægt er að gera þar sem það er fríhöfn um borð og bjórinn er mjög ódýr þar :-D

Simmer Dimm er fínn og samlokurnar frábærar... Þær bestu sem ég hef smakkað :-)

Færeyjar:



En já best að halda áfram, eftir stutt bæjrarrölt í Færeyjum var silgt áfram til Noregs. Síðan þegar við ókum úr ferjunni sá ég fyrsta flotta bílinn, glænýjan SLK, þetta kom mér svolítið á óvart og gaurinn á bílnum rak upp stór augu þegar hann sá faraskjótan okkar og horfði mikið á eftir okkur. Síðan sáum við þannig lagað enga "flotta" bíla þar til í Oslo þar sem mikið var af bensum og porschum, en sáum síðan ekki einn einasta Z4 fyrr en um mitt Þýskalandi.

Noregur:


Það má segja að Noregur sé án efa það leiðinlegasta land sem maður getur fundið þegar kemur að umferðarmenningu! Hvers vegna??, jú það eru svo margar hraðamyndavélar, á vegum sambærilegum kringlumýrarbrautinni er ekki ólíklegt að myndavél sé á tveggja km. millibili! Síðan fylgja allir hámarksshraða og hann er í langflestum tilvikum í lægri kantinum.

Aksturinn einkenndist af mörgum undirgöngum og má segja að við höfum ekið í gegnum Noreg í stað þess að keyra um Noreg. T.d. voru lengstu göngin 25 km. löng, sem er ríflega hálf leiðin frá Reykjavík til Keflavíkur, þetta var svolítið þreytandi þar sem við vildum endilega hafa blæjuna niðri og horfa upp í fjöllin sem okkur fannst mögnuð sjón. En auðvitað voru göngin full af hraðamyndavélum. Eftir smá tíma var ég komin með smá tækni, elta bara atvinnubílstjórana sem vissu hvar myndavélarnar voru. Þeir gáfu í og bremsuðu síðan þegar myndavélarnar voru nærri, við gerðum hið sama og allir ánægðir. Sem dæmi má nefna að bíllinn eyddi 7,1L/100km í Noregi skv. tölvunni sem gefur góða mynd af hversu spennandi aksturinn var :S

Við tókum síðan aðra ferju yfir til Danmerkur og þar var gistingin alveg frábær þó svo að um væri að ræða svefnpokapláss, uppábúin rúm, sturta og alles. Meira að segja innstunga sem verður að teljast til þæginda í samanburði við Norrænu þar sem engin var (fyrir bíómyndagláp á lappanum).

Danmörk-Þýskaland:



Síðan hófst hinn almenni hraðbrautarakstur, beinustu leiðina niður Jótland, sem tekur 2-3 klst. og verð að viðurkenna að það var smá tilhlökkun þegar "Grænsen" merkið sást í vegkanntinum, Þýskaland var framundan. Þegar að landamærunum var komið þá blöstu við okkur yfirgefnir landamærakofar. Sem bílstjóri þá missti ég mig auðvitað á hraðbrautunum og var öðru hverju skammaður af betri helmingnum þar sem strákurinn þótti hafa farið eitthvað of geyst, múhahaha. Mín orð voru einfaldlega að "ég var að fylgja" umferðarrhraðanum... Ég horfði bara áfram, en hún sagði að vörubílarnir hefðu virst stopp á hægri kantinum.. Eitt svolítið fyndið, UNDANTEKNINGALAUST voru porshe eigendur, sér í lagi á carrerum, gráhærðir aldraðir menn, skemmtilegast fannst mér að sjá mann örugglega um 70-80 ára gamlan á Carreru4s.

Annars stoppuðum við lítið á leiðinni niður Þýskaland, ætlum að gera það á leiðinni tilbaka. Stundum fannst mér Þjóðverjarnir aka yfir skynsamlegum mörkum, sérstaklega þegar rigndi. Engir vegatöllar voru í Þýskalandi. Við lentum í einu "stái", þ.e. umferðarteppu, hún var 16 km. löng og við vorum föst í tvær klst. eða svo.

Austurríki:





Síðan fórum við til Austurríkis og upp í Alpana, bara svalt að krúsa upp og niður fjöllin, gistingin var miklu ódýrari og skemmtilegri upp í fjöllunum heldur en t.d. í miðri Innsbruck, Austurríki er mjög fallegt og fjöllin eru mögnuð.

Ítalía:















Síðan lá leiðin til Ítalíu og ég var búinn að heyra margt slæmt um umferðarmenninguna þar og hafði því báðar hendur á stýri og við öllu búinn. En síðan fannst mér hún einfaldlega hæg og skemmtileg, minnti svolítið á skrítnu ökumenninguna í Reykjavík á góðum degi, þó svo að mér hafi fundist afar forvitnilegt að sjá gamla maddömmur troða sér fyrir framan mann og svína á mann í leiðinni á litla fiatinum sínum.

En Ítalar eru snillingar í að hanga á mitt yfir línunni milli akgreinuna og ef maður ætlar að taka fram úr þá einfaldlega renna þeir sér rólega fyrir mann, síðan er eitt annað, ég hef lent nokkrum sinnum í stríðnum Ítölum, þ.e. maður er í tjillinu hægra megin og síðan aka þeir fram úr manni og er alls ekkert á sinni akrein, þ.e. strjúka nánast spegilinn hjá manni. Ég veit ekki hvort þetta á að vera eitthvað fyndið, en mér finnst þetta alls ekkert fyndið, bara pirrandi, sér í lagi þar sem plássið er nóg.

Hinsvegar er eitt að segja frá Norður ítalíu, þar eru magnaðasta flóran af bílum, alveg ótrúlegt hvað margir eru á fáránlega flottum bílum. Maður hætti einfaldlega að horfa á eftir porschunum og SL bensunum, því þeir voru einfaldlega út um allt. Bentleyar og Ferrari voru dagleg sjón!

Eina skiptið sem ég virkileg missti hjartað ofan í tærnar var á Ítalíu, við mættum vörubíl í göngum sem lágu meðfram Garda vatninu og ég er ekki að ýkja, á svona 70 km hraða þá voru einfaldlega fáeinir sentimetrar í annarsvegar vörubílinn og hinsvegar í vegginn. Þetta fannst okkur án efa óþægilegasta upplifunin í ferðalaginu hingað til.

Það má bæta við að fjallvegirnir á Ítalíu eru það skemmtilegasta sem ég hef ekið alla ferðina, t.d. var vegur á milli Sienu og Forte De Marmi bara skemmtilegt, endalausir hlykkir og fjör. Endaði reyndar með bílveiki betri helmingsins og mér var kurteisislega bent á að hægja ferðina :-D

Þýskaland 2:

Þar sem við höfðum túrað um ítalíu í u.þ.b. tvær vikur var maður kominn í "Ítalska gírinn", maður bara ók eftir sínu höfði :-) Þjóðverjarnir eru eitthvað svo hrikalega "punktlich" á öllu.. Móseldalurinn er frábær viðkomustaður og frábært að rúnta þarna um, mikið af köstulum og gaman að skoða!!

Luxembourg:

Bara mjög svipað og Þýskaland nema hvað bensín er "fáranlega" ódýrt miðað við nágrannalöndin..

Danmörk 2:



Rúntuðum um Kaupmannahöfn og Jótland í nokkra daga. Í Danmörku eru vegirnir frábærir og meðalhraðinn 120... Ekkert flókið og einfaldlega þægilegt að aka þarna um. Kom okkur á óvart að það er ferja frá Þýskalandi beint í áttina að Kaupmannahöfn. Svolítið fyndið að sjá alla Svíana gjörsamlega stappfylla volvoana sína af bjór til að flytja yfir landamærin. Áfengi er þrefalt dýrara í Svíþjóð en Danmörku!!

Færeyjar:





Á sumaráætlun Norrænu er maður því miður "skyldaður" til að dvelja á þessari fallegu eyju í tvær nætur. Af hverju er hún falleg?? Já, hún er eins og Ísland.. Við ókum þarna um, í gegnum göng og upp og yfir fjöll, vegirnir eru skemmtilegir, en okkur tókst að aka um flestar eyjurnar á einum degi eða svo, þannig það er takmarkað sem maður hefur að gera annað en að bora í nefið og spila á spil.. Reyndar var synd að við misstum af heimsviðburði, Nylon var að halda tónleika þarna helgina á undan. Skemmtilegasta var að skoða skiltin og Færeyska texta, bara snilldin ein! Þeim finnst örugglega hið sama um Íslenskuna. Hægt er að tala Íslensku þarna og komast upp með það, miklu frekar en ensku !!

Heimkoma:

Úff úff, koman til Íslands var erfið, fyndin og skrítin beinlínis.

Byrjum á byrjuninni.

Um morguninn var ég vaknaður eldsnemma, beið eftir að bíldekkið opnaði og allur skarinn myndi strunsa inn með ferðatöskurnar sína og rispa hina og þessa bílana á leiðinni. Ég ætlaði sko að vera tilbúinn að passa upp á að enginn færi með töskurnar í fína bílinn. Þannig við settumst í stigann fyrir framan læstu hurðina og biðum eftir að hún opnaðist. Að lokum opnaðist hún og við okkur blasti ófögur sjón, manngreyið sem átti bílinn við hliðina á fína bílnum hafði gleymt að setja hann í gír og handbremsu þannig að bíllinn hans lá utan í mínum og hafði nuddast utan í hann alla nóttina. Auðvitað var ég öskuvondur en lét engin ljót orð falla, kallgreyið sem átti bílinn var alveg miður sín yfir þessu. Þetta var mjög kaldhæðinslegt þannig lagað, eftir tæplega sex vikna ferðalag og 8000 þús. km. þar sem mér hafði tekist að komast í gegnum án þess að ein einasta rispa kom á bílinn var með öllu tilgangslaus. Bíllinn er ekkert skemmdur, bara sprautuvinna. Lakkið á bílnum var óaðfinnanlegt og hafði lagt mikla vinnu í að halda því þannig :-( Ég vona að mér takist að fiffa bílinn í upprunalegt form sem allra fyrst, sérstaklega þar sem rúmlega helmingur af sumrinu er eftir !!



Og ekki batnaði þetta, við ókum á Egilsstaði til að fá okkur morgunverð og kaffibolla. Síðan lá leiðin aftur til Seyðisfjarðar í því skyni að safna plöntum sem betri helmingurinn þarf fyrir tiltekið verkefni. Við leggjum bílnum og röltum upp í hlíðarnar, ekki leið að löngu að ég tók eftir því að lögreglubíll stöðvast fyrir aftan fína bílinn. Lögreglumaður gengur út og skoða bílinn að innan sem utan, ég hélt bara að hann væri að skoða hann af forvitni. En hann er eitthvað að tölta þarna um þannig ég ákveð að kalla á kauða, hann lítur upp í hlíðina og heilsar á móti. Allt í góðu með þetta allt saman og hann fer aftur upp í bílinn sinn. Ég hélt að þessu væru með öllu lokið, en eftir nokkrar mínútur sé ég að hann er ennþá þarna, situr bara inn í bílnum. Mér líst ekkert á þetta og ákveð að rölta niður að vegi, og sé að hann kemur á móti mér upp eftir. Nú leist mér alls ekkert á þetta og þegar hann nálgast þá útskýri ég erindi okkar þarna upp í fjall í þessari týpísku íslensku rigningu. Hann hló bara og við röltum niður að vegi, en þá gerðist það merkilega, hvítur Subaru Legacy, allur skyggður brunar þarna að okkur og neglir niður við bílinn, út úr honum skoppa tvær löggur og ég tel að þetta hafi verið fíknó, það má segja að lögreglumaðurinn hafi nánast hlaupið á móti þeim og stöðvað þau.

Þannig þarna stóð ég með tvo plöntupoka með þrjár löggur yfir mér, tvær frá fíknó og síðan eina svona vinalega sveitalöggu. Seinna frétti ég svo að um borð hefðu verið litháar teknir með ýmis eiturlyf innanborðs og lögreglan hélt að við hefðum eitthvað tengst því. Já, ég skal svo segja ykkur að fíkniefnalögreglan tekur störf sín mjög alvarlega..



Þarna er lögreglubíllinn að aka í burtu, ég kunni ekki við að taka mynd þegar allt liðið var þarna, hefði ekki verið vel séð. Í forgrunni má sjá plöntupokana :-)

------------------------------------------------------------------------------------



Bensín:

Örlítið ódýrara en á Íslandi, mjög dýrt meðfram hraðbrautunum en verður ódýrara þegar maður fer inn í bæina. Ódýrast í Luxembourg...

Vegatollar:

Ekkert vandamál, bara fara í “kofana” þar sem mynd er af kalli teygja sig út í bíl. Vegatollar hafa hingað til ekki verið háir. Við fórum reyndar "óvart" í gegnum Sviss og Austurríki án þess að borga krónu. Hefðum víst getað fengið sekt, en sluppum :-)

GPS:



Við erum með pocket pc með gps móttökubúnaði, sem hefur slakað okkur niður og í raun einfaldað allt ferðalagið. Og satt að segja legði ég ekki í ferðalag sem þetta án svona búnaðar. Frændi minn sem býr í Noregi lánaði okkur þetta, kostaði 35 þús kall þar. Við höfum séð marga með þetta, stór skjár og auðvelt að nota þetta. Þetta hefur gert hlutina svooo einfalda, maður bara keyrir eftir því sem kellingarröddin segir, og ef maður vill skoða eitthvað þá bara ekur maður í þá áttina, þá "recalculetar" græjan nýja leið. Ómissandi búnaður allstaðar annarstaðar en á Íslandi. Við höfum einnig notað þetta á röltinu, til að finna hraðbanka o.fl.

Bílastæði:

Það er mesta vésenið eiginlega, hingað til höfum við aðeins gist á stöðum sem bílastæði er innifalið. Stundum er maður smeykur að skilja bílinn eftir þar sem fólk er misvel gefið þegar kemur að því að opna hurðir alveg eins og heima á Íslandi.

Þrífa bílinn:

Það er erfitt að halda bílnum hreinum en okkur hefur tekist að finna þvottastöðvar með háþrýstidælum á flestum stöðum á leiðinni. Enda eiginlega þörf á þeim þar sem bíllinn er oftar ein risastór flugnaklessa að framan eftir góðan dag.

Vegalengdir:

Löng er leiðin að Seyðisfirði eða rúmlega 1000 km (eiginlega of löng..) En kílómetramælirinn var í 10450km í upphafi og endaði í 19250km

Gistingar:

Kostnaðurinn hefur verið frá 46-90 evrur. Þetta tengist nánast undantekningarlaust hversu nálægt "kjarna" borganna maður dvelur, við höfum bara haldið okkur við 1-3 stjörnu gistingar. Aldrei hringt á undan okkur, gps tækið hefur stundum hjálpað við að finna hótel því þau eru inni á kortunum. Ódýrustu gistingarnar á leiðinni voru hér á Íslandi... ath. að nánast undantekingalaust fylgir morgunmatur með í verðinu ;-)

Árekstrar:

Höfum keyrt fram á nokkra, vörubílstjórarnir eru duglegastir að klessa á hvorn annan og eru þeir oft í subbulegri kantinum.

Blæjan:

Rokkar feitt, 140-150 er þægilegur hraði með hana niðri, fínasta loftkæling og sólbruni!

Sektir:

Fengum eina sekt!! Ókum á 65 á strandgötunni á Akureyri, lögguputzar þarna fyrir norðan.

Hverju klúðraði ég..:

Takið vel eftir hjólastígum meðfram vegum í Evrópu, þeir EIGA þessa stíga og ekki einu sinni hugsa um að koma nálægt þeim með bílinn.. manni fannst hálfgert stríð vera á milli hjólreiðamanna og bíleigenda, helst í Danmörku og Þýskalandi :-)

Bíllinn:



Komst mikið í skottið :-)

Staðið sig með prýði, eyðslan langt undir því sem við bjuggumst við, fór niður í 7L á hundraðið, en var yfirleitt í 8L... Reyndar niður Þýskaland fór eyðslan upp í 12.5L, en þá var hraðinn líka oft á þriðja hundraðinu hehe :-)




Með KraftKveðju,

Þröstur